Böhhh

Held að það sé alveg rétt hjá greinarhöfundi hér neðar að þessi dagur sé leiðinlegur. Allavega var minn dagur hundleiðinlegur. Spurning um að reyna að gera það sem eftir er af deginum skemmtilegan, spurningin er bara hvernig? Eða halda áfram að vera leið og borða helling af nammi! Er allavega ennþá kalt og ennþá í ullarsokkum.

Kalt brrrrrr

Nú er frost á fróni, eða allavega norðurfróni. Sit við eldhúsborðið mitt og reikna tölfræði eftir bestu getu í ullarsokkum og með ullarsjal yfir herðunum. Hugsa með tilhlökkun til ferðarinnar til Costa del Hörby.
Í dag er versti dagur ársins og læt ég hér fylgja með grein af www.strandir.is

Samkvæmt rannsóknum færustu sálfræðinga er dagurinn í dag versti dagur ársins. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Kvef eða flensa herjar væntanlega á einhvern í fjölskyldunni og hátíðarskapið er algjörlega horfið um þetta leyti. Við bætast yfirþyrmandi áhyggjur af jólaskuldunum og leiði yfir því að ekki tókst að standa við nýársheitin sem hafa venjulega verið svikin um þetta leyti. Skammdegið og veðurfarið hefur einnig slæm áhrif á fólk á þessum degi. Heil vinnuvika er framundan og verulegur skortur á hressu og skemmtilegu fólki til að lífga upp á tilveruna. Skemmtilegasti dagur ársins er hins vegar 23. júní samkvæmt sömu snillingum
Og þar hafið þið það.


Sunnudagur

Mikið hlakka ég til þegar það fer að vora. Þá verða sundlaugar Akureyjarbæjar nýttar til hins ítrasta. Sé fram á að komast í ræktina aftur á morgun eftir veikindin og hlakka mikið til að láta Benna hennar Rakelar lemja mig hehehe. Pissa pensillíni og mun pissa pensillíni næstu vikuna.
Átti notalega kvöldstund í notalegum félagsskap í gærkvöldi. Takk fyrir mig notalegi félagskapur.

Annar í laugardagsbloggi

Hér hafa 12 trylltar stelpur á aldrinum 8-9 ára haldið uppi fjörinu síðustu 2 tímana. Mikið stuð í afmælinu hennar Írisar eins og alltaf. Nú er ég komin í 11 mánaða barnaafmælisfrí og mikið gleður það mig. Að halda barnaafmæli er sko miklu meira en að segja það. Hér sit ég í hrúgu af snakk-, köku- og nammimylnslu ásamt pappadiskum og servíettum, alveg á tauginni eftir herlegheitin. Næsta ár ætla ég að ráða veislustjóra og eftirafmælisræstingarmanneskju!
Smell you later.

Laugardagsblogg

Unglinga afmæli yfirstaðið að mestu. 4 hrjótandi gelgjur inn í herberginu hennar Andreu að vísu. Klukkan 14:00 er svo 9 semi gelgju afmæli Írisar. Þá er afmælisvertíðin bara búin þangað til í desember, sem betur fer.
Í kvöld er svo búið að bjóða mér út að borða. Ég hlakka mikið til að borða góðan mat í mjög svo góðum félagsskap.
Best að fara að blása í blöðrur.

Ave María

Við litla systir erum búnar að ákveða að halda saman upp á 25 ára afmælið hennar og 35 ára afmælið mitt í sumar. Við ætlum að spila fyllibyttukroket úti á túni upp í sveit, þar sem einu leikreglurnar verða að það verður bannað að vera allsgáður. Svo þegar hún er orðin pissfull þá ætla ég að svissa árunum þannig að ég verði 25 og hún 35 múhahahahaha. Og það er bannað að kjafta í hana.
Er orðin hress en frekar orkulaus. Er að reyna að komast yfir námsefnið sem ég hef ekki komist í og það gengur ekki aaaaalveg nógu vel en gengur þó.
Þorrablót 27. janúar og þá verða sko snæddir pungar!
Og nei ég er ekki búin að sjá Guðmundar í Byrginu myndbandið og ekki hef ég áhuga á því heldur.

Það snjóar

Og það er kalt, en það er í lagi því lífið er bara ferlega skemmtilegt og spennandi þessa dagana.

Deyjið streptókokkar!

Heyri hvernig bakteríurnar veina og garga niður í hálsinum á mér "Nei, ó afhverju! Siggi bjargaðu mér! Við deyjum öll!" Þegar öflugar hersveitir Pensillínsins tóku atlögu og upprættu hryðjuverkabúðir streptókokkanna í hálsinum á mér. Ó ljúfa líf ég get kyngt brauðsneiðinni minni, næstum án erfiðleika. Fyrsti hitalausi dagurinn í dag og ég er ansi sjúskuð og sjoppuleg og brúni liturinn sem ég var búin að ná mér í þarna um jólin er bara farinn að mestu. Kemst væntanlega í skólann á morgun, vona ég.

Aumingjaskapurinn minnkar

Minna veik í dag en í gær. Skundaði til læknis sem hrökklaðist aftur á bak þegar hann kíkti ofan í hálsinn á mér. Mjög svæsin hálsbólga vúbbí og allt sundurgrafið. Var hent út með súperskammt af fúkkalyfjum sem ég bryð núna eins og brjóstsykur. Komst að því í gærkvöldi að líklega er ekkert sniðugt að fá sér Treo fyrir svefninn. Sat uppi í alla nótt glaðvakandi eins og ég hefði borðað upp úr heilum Bragakaffipakka.
Var í foreldra viðtölum í skólanum í morgun og er afar stolt móðir 3ja duglegra dætra. Þær eru stilltar, góðar og vinnusamar og allir ánægðir með þær. Eitthvað annað en móðirin sem reiddist svo þegar hún var skömmuð fyrir að hafa ekki klárað heimalærdóminn (sem var reyndar ósvífið að ætlast til) að hún henti blómapotti í skólastjórann.
Best að taka smá kríu og skoða svo tölfræðina.

Ennþá aumingi

Eins bjánalega og það hljómar er ég með svæsna hálsbólgu öðru megin í hálsinum sem leiðir upp í eyrun. Tók mig 20 mínútur að borða eina brauðsneið með osti og einföld aðgerð eins og að drekka blávatn er engin göngutúr í garðinum. Sunnudagurinn fór í hálfgert meðvitundarleysi og ég hugsa að þessi dagur fari í það líka. Afkvæmin ganga um sjálfala og heimilið minnir á ruslahaugana.
Ætla að hringja í lækni og það gerist nú ekki oft.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband