STRESSUÐ!!!!!!

Háskólinn á Akureyri var að hringja í mig fyrir stuttu. Indæla konan tjáði mér það að mig vantaði einungis 2 einingar til að fljúga inn, en þar sem mig vantaði samt þessar 2 einingar þá þarf umsóknin mín af fara fyrir nefnd. Nú ligg ég hér á bæn og þessi helgi á eftir að verða skelfilega löng. Er búin að naga neglurnar upp að handakrikum og er komin með blettaskalla. Ég finn alveg lyktina af þessu námi og því væri það skelfilegt ef ég kæmist nú ekki inn.
Svo keypti ég mér minn fyrsta bíl í dag. VW passat árgerð 1998, keyrður 113þús km og fallega dimmrauður að lit er orðinn bíllinn minn. Fæ hann þó ekki strax þar sem hann er á Akureyri en ég hér.

Gvöð ég er að farast úr stressi!


Bláu myndirnar frá Prag

Var með gest í gær sem rak augun í eignarskiptingalistann okkar Júlíusar. Gesturinn las yfir listann og varð pínu skrítin og hugsi á svipinn. Ég var ekkert að spöglera mikið í því fyrr en að hún ræksti sig og spurði því í ósköpunum við hefum verið í vanda með hvort okkar fengi tékknesku klámmyndirnar. Ég skildi engan veginn hvað gesturinn var að tala um, þar til að hún benti á einn lið á listanum þar sem stóð "Bláu myndirnar frá Prag". Bláu myndirnar eru alls ekki klámmyndir eins og maður hefði auðveldlega getað haldið, heldur einfaldlega listaverk unnin með blárri krít og voru keypt af götusala í Prag.

Ást við fyrstu sýn

Er hún til? Er það virkilega mögulegt að maður geti skroppið út í Bónus og komið til baka yfir sig ástfangin af manninum sem var að velja sér epli í grænmetiskælinum? Eða þá af manninum sem maður beið með í strætóskýlinu? Þeir sem halda því fram tel ég vera rugludalla með meiru. Ég held að það að verða ástfangin sé eitthvað sem tekur tíma. Maður þarf að kynnast viðkomandi og sjá hvort að hann passi manni. Svo veit maður aldrei hvort að maður vakni ekki bara einn góðan veðurdag eftir nokkur ár og fattar þá að hann passar ekki lengur. Eða þá að maður uppgötvar að viðkomandi var einhver allt annar en maður hafði haldið að hann væri. Hef fengið að prófa hvor tveggja og hvorugt er skemmtilegt. Að finna sér sinn sálufélaga er mikið vanda verk og í rauninni skil ég ekki afhverju það er ekki löngu búið að skanna út hverjir eiga best saman og setja á okkur strikamerki svo maður þurfi ekki að standa í svona veseni. Það er komið árið 2006 og fólk á ekki að þurfa að puða svona við þetta.
Sé alveg fyrir mér fólk vera að skanna hvert annað á almannafæri og svo þegar viðkomandi finnur þann eina rétta þá er bara drifið sig í kirkju á nóinu. Ekkert vesen með að vera að prófa nokkur ár í sambúð, drita niður nokkrum krökkum, bara til þess að fatta svo að þessi gaur var ekki sá rétti og þurfa svo að skila honum.
Nei ég er sko ekkert bitur

Útilegukonur

Fröken Sylvía er í Ísafjarðarbæ og því var það tilefni til að fara í útilega um ca 1 km frá heimili mínum. Við slógum upp tjaldborg og grilluðum í flíspeysunum okkar. Opnuðum svo eina skítkalda hvítvín og sötruðum Gerður kíkti á okkur og þá þótti okkur tilvalið að láta taka hópmynd af þessum fríða flokki (mér, Gerði og Sylvíu)á fínu flíspeysunum okkar. Lögðumst við svo til hvílu einhverntímann eftir miðnætti og undirrituð verður að viðurkenna að vistin var nú ekki alveg eins og best var á kosið. Kuldi og vosbúð fram eftir nóttu (þó bjargaði flíspeysan einhverju) og svo tók gólandi Jóhann við upp úr klukkan 6 um morguninn. Engu að síður bara nokkuð gaman og hver segir svo að maður þurfi að keyra þvert yfir landið til að skella sér í útilegu. Eitt er þó ljóst að flíspeysan er hið mesta þarfaþing.


Blogg blogg blogg blogg blogg

Komin heim í Skutulsfjörðinn.
Hélt ég myndi ekki sjá börnin mín aftur þegar flugvélardruslan var að fljúga inn í Ísafjarðardjúpi. Skrölt og hristingur eru ekki mjög uppörvandi og það mætti með sanni segja að ég hafi setið í hægðum mínum. Reyndar var hann Vignir Örn frændi minn flugstjóri í þetta sinn og ég ákvað að treysta því að hann væri jafn fjandi klár og ég og myndi bara redd'essu, sem hann reyndar gerði.
Er ennþá stórhrifin af því sem ég sá á túni klamburs, seint í gærkvöldi. Og svei mér þá ef hún ég sé bara ekki bara búin að Sigur Rósast. Þetta var svona "had to be there" moment og ég held að ekki nokkur sála hafi setið eftir ósnert eftir síðasta lagið.
Háskóla umsókn fer í póst í fyrramálið og eftir fréttir síðustu daga þá verð ég að segja að ég er ekkert ógurlega bjartsýn. Eignaskipting fer líka fram á morgun. Búið að ganga frá skilnaðarpappírum, setja húsið á sölu og annað slíkt. Þetta potast og bráðum verður maður komin með sína eigin rútínu og þá verður lífið bara ljúft.

Sigur Rós

Fór á tónleikana á Klambratúni í gærkvöldi og varð verulega hrifin. Ekki það að sumt að þessu hafi verið óttalegt gaul, þá voru nokkur lög sem voru svo góð að maður sætti sig við gaul lögin. Síðasta lagið og atriðið sem því fylgdi var svo svakalegt að maður fékk gæsahúð og stóð sem dáleidd væri. Jasús Pjetur og allir hans félagar, fæ meira að segja gæsahúð við að hugsa um það. Awsome bara!Annars var ég farin að það stæði með upplýstum stöfum "exit" á enninum á mér á meðan ég stóð þarna á túninu, því að fólk virtist hafa óstjórnanlega þörf til að troðast fram hjá þar sem ég stóð og það þótti mér pirrandi.Over and out úr ómenningunni.

Pet dítektiv

Bara allt að gerast. Búin að fá 3 vikna vinnu í gæludýrabúð ísfirðinga, er að fara að senda af stað umsókn í háskólafjarnám á þriðjudaginn, líklega búin að kaupa mér bíl, þarf bara að finna út hvernig ég borga fyrir hann, var að raka á mér lappirnar, ég og Gerður ætlum að rústa drekktu betur á fimmtudaginn og síðast en ekki síst þá er ég að fara heim aftur á morgun. Hver segir svo að það gerist aldrei neitt í mínu lífi.Mér líður bara alveg ágætlega.

Ómenningin

Er stödd í ómenningunni í afslöppunarferð. Og já ég ætla ekki einu sinni að fara á útsölur svo mikið á afslappið að vera. Hinsvegar neyðist ég til að kaupa mér sokka því að ég hafði ekki rænu á að pakka einu einasta pari. Eins gott að ég tók pollagallann með því hér er mígandi rigning og ég hugsa að ég geti gleymt sólböðum á Costa del Nauthólsvík.Hvað á ég svo að gera á meðan dvöl minni stendur?

Súúúúperman

Er ekki eins flottur og Batman. Sonur hinsvegar tók súperman nærbuxur fram yfir Batman nærbuxur þegar hann fékk að velja áðan. Nú spígsporar hann um með súperman á bibbanum og bros á vör. Ójá hann er karlmenni mikið hann sonur minn, alveg eins og mamma sín.
Viktoría mín verður 23 ára á föstudaginn og þar sem ég verð væntanlega ekki við tölvuna mína næstu daga þá ætla ég bara að óska henni til hamingju með tuttuguogþriggja ára afmælið núna. Sem sagt, Viktoría Rán er 23 ára á föstudaginn 28. júlí.

Sumarið kom í dag

Og þá brunaði ég auðvitað í sund með afkvæmin.
Gengið var frá pappírum vegna sambúðaslita í dag og er ég þá orðin formlega einstæð móðir með fullt fullt af krökkum. Næsta skref er að sækja um þetta háskólanám og upp úr miðjum ágúst ætti ég að fá af eða á í sambandi við það. Er svo sem ekkert allt of bjartsýn. Svo þegar ég er búin að fá af eða á, þá verður næsta skref að skipuleggja flutninga til Costa del Akureyris. Verð að segja að ég er pínu kvíðin um hvað framtíðin ber í skauti þó að ég sé sátt við skilnaðinn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband