LÍN

Er til vandræða. Vegna seinagangs og heimtufrekju um undarlegustu pappíra þá er ég að fara á taugum. Á eftir að kaupa skólabækur og fiffa hitt og þetta í bankanum og því liggur mér pínu á að fá lánsáætlun frá þeim. En nei þeir eru ekki á sama mála og eru bara að dútla sér við þetta í rólegheitunum.
Í næstu viku liggur svo leiðin með Flugfélagi Íslands, fyrst suður í Sódómu þar sem ég mun stoppa í rúman sólarhring og halda svo áfram för minni norður á bóginn og hefja mitt nám á velgengisviku sem haldin verður í Háskóla Akureyrar. Eftir skólastússið þá keyri ég svo á splunkunýja, gamla bílnum mínum heim á Ísafjörð og klára að ganga frá búslóð.
Er voða andlaus þessa dagana og hef ekkert sniðugt að segja. Það skrifast alfarið á allt of marga gargandi páfagauka sem ég þarf að sitja yfir í 7 tíma á dag.

Hraðpakk

Keyri burt úr Skutulsfirðinum 31. ágúst næstkomandi og er það farin og flutt. Það þýðir að það verður ansi mikið að gera á þessum bæ á næstu dögum. Bjóða sig einhverjir fram sem hafa ógurlega gaman að því að pakka? Er í smá stresskasti en það er bara fínt því það er svo megrandi.
Yfir og út.

Blogg um ekki neitt

Fór á fætur, fékk mér morgunmat, fór í vinnuna, vann, fór úr vinnu, eldaði kvöldmat, kom krökkum í rúmið, lagðist í sófann, horfði á sjónvarp, sofnaði yfir sjónvarpi, var vakin af gallup, horfði meira á sjónvarp, settist við tölvu, bloggaði, er hér ennþá, mun líklega fara að sofa á eftir.
The end.

Back to business

Er þessa dagana með tuskuna á lofti endalaust. Fólk virðist vera nokkuð áhugasamt um húsið okkar og hafa 3 aðilar skoðað núna þegar húsið er búið að vera rétt rúma viku á sölu. Því fyrr sem það selst því betra.
Er byrjuð að leita mér að húsnæði á Akureyri og vonast til að flytja í byrjun eða um miðjan september. Krakkarnir orðnir hrikalega spenntir og allir sáttir. Verð að fara að æfa mig í norðlenskunni svo að fólk skilji mig þarna í Eyjafirðinum.
Annars ofsalega lítið að segja að þessu sinni, nema jú ég lýsi frati í þetta svokallaða sumar!!!

Ráðgátan leyst

Hef mikið verið að spöglera í því hvernig stendur á því að nærbuxur hér á heimilinu vilja gufa upp. Ráðgátan leystist núna í kvöld. Fann naríurnar mínar ofan í klósettskálinni. Spurði 2 ára strump hvers vegna nærbuxurnar mínar væri þarna ofan í. Hann kvaðst vera saklaus og benti á Írisi systur sína. Ég kenni samt sjálfri mér um því að hann sá mig sturta fiski niður og nú heldur hann að klósettið sé leiðin að betri heimi og hefur greinilega viljað bjarga nærbuxunum frá því fúla lífi sem þær þurfa að lifa.

Dagur að kveldi kominn

Hjólaði heim úr vinnunni dösuð með suð fyrir eyrum vegna fuglagargs. Í síðustu brekkunni hrundi keðjan af og neyddist ég því til að leiða hjólið síðustu metrana og allir hafa örugglega haldið að ég væri svona mikill aumingi að ég gæti ekki hjólað upp brekku. Renndi í hlað heima hjá mér ennþá með fuglagarg í eyrum og opnaði útidyrnar. Í andyrinu var pakki til mín, jiii hvað það er gaman að fá pakka. Reyndar var hann ekki merktur frá neinum svo ég veit í rauninni ekkert hver sendi mér hann. Kannski á ég leynilegan áðdáanda þarna úti? Fuglagargið er nú samt ennþá í eyrunum á mér og ef ég er heppin þá verður það farið áður en ég mæti aftur til vinnu í dýrabúð Ísafjarðar í fyrrmálið.
En jiiiii hvað það var svakalega gaman að fá pakka!

Í minningu um Randver

Fyrir stuttu rak ég augun í fiskabúr heimilisins sem mér þótti vera orðið ansi ósjálegt. Vatnið var orðið gruggugt og fiskarnir börðust við að synda um í hnausþykku vatninu. Ég þóttist sjá að nú væri tími til kominn að þrífa búrið svo blessaðir fiskarnir þyrftu ekki að puða svona.
Ég lyfti fiskabúrinu af kommóðunni og bar inn á baðherbergi og lagði það varlega frá mér á vaskborðið. Ég tók mig til við að veiða fiskana upp einn og einn með þar til gerðum háfi. Neita því ekki að veiðimaðurinn kom upp í mér og var ég orðin þrælspennt á tímabili.
Eitthvað var fiskurinn Randver tregur við að láta veiða sig. En eftir mikið puð þá tókst mér þó að ná í sporðinn á honum og fanga hann í háfinn. Sigri hrósandi vippaði ég háfnum upp úr búrinu, rak upp siguröskur mikið og hugðist smella Randveri í litlu skálina þar sem hinir íbúar fiskabúrsins biðu spenntir. Í æsingnum tókst Randveri að skutlast upp úr háfnum og ekki vildi betur til en svo að hann lenti beint ofan í klósettinu sem var galopið við hliðina á skálinni með vinum og félögum Randvers.
Ég heyrði hvernig fiskahópurinn gólaði "NEEEEEIIIIIIII" á sama augnabliki og Randver sveif í slow motion ofan í salernið. Ég heyrði létt skvettuhljóð þegar litli fisk kroppurinn lenti á yfirborði salernisvatnsins. Ég greip fyrir andlitið í angist minni en píndi mig svo til að kíkja á milli fingra minna. Þarna synti Randver um sæll og glaður í postulínu.
Ég mundaði háfinn og hugðist leggja í björgunarleiðangur. Randver var hinsvegar sáttur við sitt nýja heimili og var ekkert á því að láta fanga sig í annað sinn. Hugsa að hann hafi bara hrósað happi yfir því að hafa ekki lent í vatnsdalli kattanna. Hann synti alltaf í hvarf og ekki var nokkur leið að ná til hans, þó svo maður reyndi að lokka hann fram með ýmsum fögrum fyrirheitum.
Ég var ekki að sjá hvernig þetta myndi ganga. Eitt afkvæmi mitt var farið að kvarta um að hún æri alveg við það að fara að kúka í buxurnar og yrði bara að fara núna annars yrði henni brátt í brók. Ég þurfti að taka ákvörðun og það strax. Eftir nokkurn tíma sá ég fram á það að ég neyddist til að sturta. Með erfiðleikum fálmaði ég í átt að sturthnappnum og hikaði. Mér varð litið að skálinni þar sem vinir og vandamenn Randvers horfðu á mig með ásökun í augum. Svo lokaði ég augunum, fór með faðir vorið og togaði. Ég heyrði hávært sturtuhljóð og neyddi sjálfa mig til að horfa ofán í klósettskálina.
Ég hélt í þá veiku von að Randver væri af laxakyni og myndi geta barist við strauminn í staðinn fyrir að skolast út í sjó. Mér varð ekki að ósk minni. Nú get ég ekki horft framan í þá sem eftir eru í fiskabúrinu og get ekki sofið á nóttunni.
En eitt hef ég þó lært af þessum raunum og það er að loka alltaf klósettinu áður en ég fer að þrífa fiskabúrið.

Jamm og jæja

Loksins loksins hrökk bloggið í gang.
Nóg af verkefnum framundan.

Var að sækja um námslán hjá LÍN og svo þarf að fara að díla við bankann
Er að leysa Gerði af í dýrabúð Ísafjarðar á meðan hún djammar og duflar á Spáni
Kaupa fokdýrar námsbækur
Ferð til Akureyrar 23. ágúst til að háskólast og sækja bílinn sem ég var að kaupa mér
Byrja að græja flutninga
Ferð suður í Sódómu í byrjun september til að sækja undirbúningsnámskeið fyrir námið
Reyna að vera róleg og fara ekki yfirum af stressi
Svo á ég líka afmæli á morgun og verð hvorki meira né minna en 12 ára. Ætla eyða afmælisdeginum innan um gargandi máleysingja og senda Hörpu minni í Danaveldi mína stærstu og bestu gangiþérveláprófinustrauma.


Góðir hálsar

Hún ég er að fara að læra viðskiptafræði við háskólann á Akureyri. Eftir erfiða bið var mér hleypt inn. Í dag er góður dagur.

Testing Testing

Og meira testing

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband