Sælinú

Nóg af verkefnum framundan hér á bæ. Verkefnaskil nálgast á ofurhraða en ég hef engar áhyggjur.
Skellti mér á rúntinn í gær með bílinn fullan af papparusli. Svo fullan að ég var í vandræðum með að skipta um gír og sá ekkert út nema rétt svo beint fram og svo út um gluggann á vinstri hönd. Verkefnið var að fara að losa sig við alla þessa pappakassa sem höfðu safnast saman hér vegna flutnings.
Ég brunaði út úr bænum, upp hóla og hæðir og inn í Glerárdal þar sem ruslahaugarnir eru staðsettir. Stökk út úr bílnum í hnésíðum kjól og léttum skóm og spurði manninn í vinnuskúrnum hvert ég ætti að setja þetta. Karlgarmurinn sem var töluvert líkur leppalúða sagði að ég hefði ekkert erindi þangað og þá sérstaklega ekki á fólksbíl og alls ekki svona klædd.
Ég varð náttúrulega afar hissa og spurði hvort að þetta væri ekki ruslalosunarstöð? Jújú þetta voru svo sem alveg ruslahaugarnir en leppalúði benti mér á að líklegra væri betra fyrir mig að fara með þetta á gámasvæðið.
Svo aftur þurfti ég að stökkva inn í bíl og keyra yfir hóla og hæðir og uppgötva svo að gámasvæðið var nánast við hliðina á mínu fagra heimili.
Þetta er ég í hnotskurn ójá.
Svo sakna ég stóra bróður pínu ponsu.
Farin í sturtu.

Oxford advanced learner's dictionary

Datt ekki nein fyrirsögn í hug svo mér þótti tilvalið að skella inn titlinum á fyrstu bókinni sem ég sá hér á borðinu fyrir framan mig.
Hef heldur ekkert að blogga um, sit hér og bíð eftir því að klukkan nálgist 10 því þá er komin tími á að fara í tíma í hagnýtri tölvunotkun.
Þurfti að skafa rúðurnar á bílnum í morgun með hárbursta en er búin að setja sköfu á innkaupalistann.
Búin að versla mér queen size skeiðvöll.
Búin að fá lykla af geymslu svo að við erum ekki lengur að týna hverju öðru á milli kassafjalla.
Þarf að versla mér bókahillu til að losna við pappakassa sem innihalda bækur.
Er ennþá ferlega ánægð með tattúið mitt, það sést ekkert í örið lengur.
Mér er kalt.
Ég er að fitna.
Ég ætla að hætta að fitna og mjókka aftur.
Ég er ánægð með lífið og tilveruna sem aldrei fyrr.
Núna þarf ég víst að fara að bursta tennurnar.
Bless

Brjóst

Það er ekki tekið út með sældinni að vera kona stundum. Sérstaklega þegar maður er kona sem hefur potað úr sér nokkrum börnum og haft þau öll á brjósti. Líka þegar maður er kona sem er skriðin yfir þrítugt. Og þá erum við að ræða sæld með tilliti til brjósta og fegurðar þeirra.
Ég man þá tíð þegar pabbi hennar Andreu baulaði út úr sér fyrir um 15 og hálfu ári "you've got nice breasts". Ég var að sjálfsögðu upp með mér en svo barnaði hann mig helvískur. Heyrði aldrei aftur "you've got nice breasts" og vil ég meina að það sé algjörlega honum að kenna.
Við Gerður vorum að ræða ýmsar aðferðir við að klæða sig í júgurhöldin svo að vel væri. Hennar taktík er að halla sér fram á meðan hún smellir fyrir aftan bak. Mín taktík er að smella að framan og færa svo aftur fyrir og svo hagræða júgrunum. Maður hefur svo sem lent í því að vera á hraðferð og önnur geirvartan hefur bent í suðvestur á meðan hin benti í norðvestur. Það er frekar vandræðalegt sérstaklega ef það er svalt. Það vill engin kona valsa um með rangeygð brjóst.
Sem betur fer eru til verulega góð júgurhöld á markaðnum í dag sem blekkja vel og vandlega og láta líta út fyrir að maður sé með unaðsfagra barma þrátt fyrir allt. Og hjálpar það eflaust til þegar veiða skal sér karlmann í soðið. Svo er of seint í rassinn gripið fyrir vesalings karlkjánann þegar heim er komið sökum ofurölvunnar og það hentar okkur hinum barmsíðu afar vel.
Gvuð blessi Wonderbra og félaga hans.

Ótrúlega sexy

sæhestur prýðir nú mallakútinn minn. Þegar ég fletti í gegnum tattú möppuna í leit að fiðrildi stökk á móti mér þessi sæhestur og gargaði "veldu mig". Fyrir löngu hafði ég einmitt ákveðið að fá mér sæhest, ég hafði haft sérstakt dálæti á þeim sem krakki. Hafði samt eitt löngum stundum við að leita að hinum eina rétta en sú leit hafði ekki borðið árangur fyrr en í kvöld. Ég er sem sagt ekki lengur hrein mey á tattú sviðinu og hafa meydómar af ýmsu tagi fokið að undanförnu ójá.
Hef ákveðið að blogg morgundagsins verði tileinkað brjóstum.

Ákvörðun tekin

Hef ákveðið að fá mér tattoo á vömbina til að fela ör sem ég er með þar rétt fyrir neðan naflann. Búin að fá meðmæli með tattoo dúd hér á Akureyris og var að spjalla við hann. Annað kvöld verð ég sem sagt komin með þetta fína fína fiðrildi á mallakútinn minn vúbbí. Næst verður það risa akkeri á upphandlegginn.

Rúmfræði og aðferðarfræði

eru fög sem hæglega er hægt að túlka á dónalega hátt. Hinsvegar er rúmfræði alls ekki dónaleg þó hún sé afar skemmtileg og aðferðarfræði er eins langt frá því að vera dónaleg eins og mögulegt er. Er sem sagt búin að sitja í stærðfræði og aðferðarfræði frá því klukkan 8 í morgun og heilabúið mitt er orðið dasað. Ætla að þramma á bókasafnið á morgun og leita að gögnum fyrir rannsóknarverkefnið ógurlega. Fullt af verkefnaskilum framundan og nóg að gera.
Á Akureyri er skítkalt. Gruna Þórð stórlega um að hafa stolist með góða veðrið úr landi og væri það honum alveg líkt. Vaknaði í morgun og sá hvítt í fjöllum sem kætti mig lítið. Snjór er óþarfi nema frá ca 10. des fram til 2. janúar, eftir það má hann bara vera annars staðar.
Keypti kojur fyrir Karen og Írisi í gær og er alveg við það að fara að blæða í rúm handa sjálfri mér.
Hvernig stendur á því að kvöldbröltarinn ég meika ekki að vaka fram yfir 10 á kvöldin þessa dagana?

Tommy Lee tengdasonur minn?

Hvernig í ósköpunum er hægt að vera 14 ára og finnast Tommy Lee hrikalega heitur? Allavega þá á ég hér 14 ára dóttur sem er einlægur aðdáandi og langar meira að segja að fara að spila á trommur af því að Tommy er svo flottur. Mætti ég þá frekar biðja um Johnny Depp sem tengdason, en hún var skotin í honum í síðasta mánuði.
Er á leiðinni í tíma upp í háskóla og má ekkert vera að þessu blaðri svo bless.

HVERJUM þykir sinn fugl fagur...

Og ég er engin undantekning og bara verð að sýna ykkur þessa mynd af 3 yngstu sem móðursystir mín tók í sumar af Írisi, Karen og Jóhanni.
Gvöðdómlega vel heppnuð eintök þó ég segi sjálf frá

Býflugurnar og blómin

Þar kom að því!
Unglingurinn fór að spyrja út í hvað væri leyfilegt í kærastamálum. Hvort hún mætti kannski vera með gaur sem væri örlítið eldri og annað slíkt. Ég sagði að 1-2 ár væru svo sem í lagi en að hún yrði að gera sér grein fyrir því að dúdar á þessum aldri væru spólgraðir djöflar sem vildu bara komast í brækurnar hennar.
Þá fór hún að forvitnast hvað ég hefði nú verið gömul þegar ég missti minn meydóm. Ég svaraði að ég hefði verið 25 ára og hefði misst hann með pabba hennar. Henni fannst það úber hallærislegt að ég hefði verið orðin svona gömul og náði varla upp í nefið á sér fyrir hneykslan. Var greinilega ekki að átta sig á því að líklega væri ég að skrökva þar sem ég var 19 ára þegar ég fæddi hana. Svo þarf hún ekkert að vita að ég hafi verið nákvæmlega jafngömul henni þegar sá skelfilega pínlegu og fálmandi atburður átti sér stað fyrir löngu síðan.
*hrollur*

Olé Olé Olé

Sætur sigur á Mansteftirjúnæted í dag og mikið var ég svekkt að geta ekki horft á herlegheitin.
Er farin að hafa verulegar áhyggjur af stökkmúsunum Þórarni og Ágústi. Ekki nóg með það að þeir séu hættir í líkamsræktinni heldur er greinilegt að plast er mjög fitandi. Er að spá í því að kaupa hlaupahjól ekki úr plasti og sjá þannig við þeim. Svo er spurning hvort maður fari ekki að fæða þá með Kellogs special K í staðinn fyrir hið venjulega hamstra/músa/naggrísafóður. Allavega minnkar mittismálið á konunni í auglýsingunni svo það hlýtur að virka á mýs líka.
Verð svo að sýna samhug í verki og versla mér líkamsræktar kort sjálf. Hef ekki stigið inn í ræktina síðan í júní og uss uss það er ekki gott. Hlakka til að fara að púla aftur og taka á því og vera góð fyrirmynd fyrir stökkmýsnar múhahaha.
Gunna ég er með játningu. Ég keypti líka ruslafötu í rúmfatalagernum. Ég skammast mín ógurlega.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband