Geimvera fundin

Og það í minni eigin tölvu. Þessi geimvera er í formi vírus sem situr sem fastast og glottir framan í mig þegar ég reyni ítrekað að fjarlægja hann. Tekur á taugarnar og ég veit að ég mun sigra hann að lokum. Hvernig er svo annað mál.Hjálpsamir tölvunördar eru hjartanlega velkomnir í kaffi hingað á Akureyri 45.

Fremur ólíklegt?

Stjörnuspá
Ljón: Þú ert að safna saman í lið til að fara að leita vitsmunalífs í geimnum. Þú finnur það sem þú leitar að - það er skemtilegt fólk rétt handa við hornið sem bíður þess að fá að spjalla við þig.Hver vill vera memm? Getum haft svona Star Trek þema og allt.

Spegill spegill herm þú mér

Athyglisbrestur í kjölfar verkefnagerðar virðist vera landlægur á meðal nemenda Háskólans á Akureyri. Merkilegt nokk að þegar maður á að vera á fullu trukki við ritgerðarsmíðar, greinagerðar eða skýrsluskrif þá leitar hugurinn eitthvað allt annað. Í dag er ég t.d. búin að standa sjálfa mig að því að vera skoða stjórnmálaskeggræðingablogg sem mér finnast í flestum tilvikum alveg skelfilega leiðinleg, ég er búin að refresha www.mbl.is ca 58 sinnum í dag, taka minn daglega bloggrúnt helmingi oftar en vanalega, lesa www.bb.is "spjaldanna" á milli og jafnvel hef ég lags svo lágt að fara inn á www.bobthebuilder.com og það bara fyrir sjálfa mig. Get samt sagt með góðri samvisku að ég hef ekki lagst svo lágt að fara inn á www.asianmonkeyporn.com né www.analvacumcleaner.com eða sóðasíður í þeim dúr. Staldraði þó aðeins við inn á www.venus.is í leit að eiginmanni en fann engan sem var sjálfuppblásinn.Spurning um að hætta þessu drolli og koma sér að verki?Tannsi á morgun og þar er alltaf stuð.

Andsetni prentarinn í grænmetisgarðinum

Sit hér við skrifborðið mitt og er að prenta út eyðublöð og annað efni fyrir ársreikningaverkefnið sem við Sæunn eigum að skila 26. mars.Það gengur bara ofsalega vel að prenta þó ég segi sjálf frá. Að vísu er prentarinn eins og hann sé á spítti þessa stundina. Byrjaði að prenta í slow motion en tók sig svo til og tók æðiskast og hrækti blöðunum úr sér á methraða svo að mér stóð hreinlega ekki á sama.Vil benda dyggum lesendum mínum á að taka þátt í djúphugsuðum pælingum Sæunnar á blogginu hennar www.123.is/snyrtipinni og gefa upp hvaða grænmeti þú ert, sértu kona eða hvaða ávöxtur þú ert sértu karl. Ég komst að því sjálf eftir miklar pælingar að ég get ekki verið neitt annað en gúrka.Prentarinn búinn að vinna, best að ég vindi mér í lærdóminn.Yfir og út!

Áfram Latibær og Arsenal

Sunnudagur í dag hefur mér verið tjáð. Hið besta mál og ég er ekki einu sinni búin að klæða mig í dag eða hafa mig til á nokkurn hátt. Úti er leiðindarveður og því skellti ykkar ástkæra ég, í eina skúffuköku sem er að bakast í þessum pikkuðu orðum.Sonurinn er búinn að horfa á Latabæjar diskinn sinn svona ca 6 sinnum í dag og eins og svo oft áður fyllist hjarta mitt af hlýju og þakklæti þegar ég hugsa til Magga Íþróttaálfs og Latabæjarmógúls. Yndislegt að þurfa ekkert að ala þessi börn upp lengur.Sæunn vinkona mín í firði hafna heldur því fram á blogginu sínu, að fótboltagláp sé eingöngu eitthvað sem karlmenn stunda af mikilli áfergju. Ég vil endilega leiða hana af villu síns vegar og minna hana á að bæði ég og Gerður erum harðar fótboltabullur af kvenkyni. Kannski spurning mín kæra Sæunn að bjóða þér að vera með okkur þegar við horfum saman á leik. Það er stuð og oft á tíðum mjög hávært.Með bestu kveðju,Guðbjörg Gunner.

Ráðgátan um stöku sokkana

Hvernig í ósköpunum stendur á því að sokkaskúffan á þessum bæ endar alltaf á því að innihalda hátt í 200 einstaka sokka? Hvert í ósköpunum fara hinir 200 sem eiga að passa við skúffubúana?Ég hef átt langar andvökunætur við að reyna að leysa þessa ráðgátu án árángurs. Ég hallast þó helst að því að það séu í raun til álfar sem steli sokkum, þrátt fyrir að fólk hummi það oftast fram af sér. Önnur tilgáta er sú að sokkaframleiðendur hafi fundið upp einhverskonar formúlu sem láti annan sokkinn eyðast og verða að engu um leið og hann lendir í óhreinatauskörfunni, og þannig græði þeir helling, því fólk þarf jú að ganga í samstæðum sokkum.Mér hafa líka dottið í hug nokkrar lausnir á þessum hvimleiða vanda.T.d. að kaupa alltaf alveg nákvæmlega eins sokka og þar með er vandamálið leyst. Eða koma af stað tískubylgju svo að ósamstæðir sokkar þyki ekki yfirmáta hallærislegir og merki um slóðaskap, heldur helvíti töff, hipp og kúl. Líka væri hægt að sleppa sokkunum algjörlega en það er kannski helst til róttækt í íslenskri veðráttu.Verandi móðir nokkurra para af fótum þá er þetta vandamál viðamikið hér á bæ. Hér eru nefnilega 2 stórar sokkaskúffur og meirihluti íbúa þeirra er ósamstæður. Ég hef tekið mig til við og við og hent sokkum sem hafa tapað lífsförunauti sínum en oftar en ekki þá finnst hinn helmingurinn um leið og ruslabíllinn hefur rennt úr hlaði. Ég þori því ekki fyrir mitt litla líf að henda einum einasta sokki fyrr en eftir nokkura ára viðveru í sokkaskúffunni sem einstæðingur. Því er ég dæmd til eilífðarnóns að róta í örvæntingu í skúffunni góðu, á hverjum einasta virka morgni, í leit að samstæðu pari fyrir skóladag afkvæma minna.Í dag er snjókoma í höfuðstað norðurlandsins og því þykir mér tilvalið að fara út í bæjarferð með afkvæmin og fá okkur ís. Og nei ekki Brynjuís, hann er ógeð.

Urrrrrrandi vont skap

heitastahoppandidjöfulsinsandskotansbévítansfokkrassgatsandskoti.Góð byrjun á annars ósköp venjulegum föstudegi.Smá fróun en þó ekki mikil.Yfir og út.

Barnaklám

Ætla að benda á svo aldeilis ágætan pistil um barnaklám sem hann Þórður vinkona skrifaði á blogginu sínu http://ththors.blogspot.com/Er annars komin á kaf í tölfræðina og er ekkert svo voðalega örvæntingarfull ennþá. Ætla að stökkva yfir í Bjarg núna klukkan fimm, hlaupa af mér hornin og skella mér í pottana eftir það.Tíðindalaust líf ég veit, en hverjum er svo sem ekki skítsama.

Ekkert mál fyrir.. öhmm.. mig, skál!

Hafandi verið í sambúð síðustu 14 árin þá hef ég aldrei þurft að fara með heimilisbílinn í skoðun. Það hefur alltaf verið hlutverk betri helmingsins. Í dag varð breyting á. Ég sjálf og minn ástkæri VW Rassat mættum í húsnæði Frumherja núna rétt eftir hádegið. Grútskítugur Rassatinn var þrátt fyrir allt hinn glæsilegasti á brautinni. Eftir að það var búið að þukla hann og mæla á alla kanta fékk hann á sig skínandi fína '08 miða bæði að aftan og að framan. Jeij mér tókst að fara með bílinn minn í skoðun og það var hreinilega bara ekkert mál. Tjahhh maður spyr sig, hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?Komin skínandi fín hlaupabretti á Bjarg með sjónvarpi. Nú get ég tætt upp kílómetrana á brettinu og horft á Gædíng Læd.

Að deyja ekki ráðalaus

Núna sit ég með tölfræðibókina mína og er að vinna mig í gegnum kaflana einn í einu. Til þess að þurfa ekki endalaust að vera að fletta fram og til baka þarf ég litlu post it miðana mína sem eru í mörgum og fallegum litum. Hinsvegar virðist það vera svo að ég eigi einstaklega glysgjörn börn því að ég finn post it miðana hvergi. Það væri svo sem ekki í fyrsta sinn sem að glysgjörnu afkvæmi mín hnupluðu þeim frá mér. Þau virðast vera ansi sólgin í þá. Ég dey samt ekki ráðalaus ónei! Hér á heimili er til plástur og núna er tölfræðibókin mín fallega skreytt með plástrum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband