HEITASTA HOPPANDI HELVÍTI!!

GARG!! ÉG ER HÉR MEÐ BÚIN AÐ TAPA GLÓRUNNI ÞÖKK SÉ EXCEL VERKEFNI HELVÍTIS!
Búin að stofna I Hate Excel formúlur dauðans klúbbinn.
Getið öll þakkað fyrir að hafa ekki verið nálægt núna áðan þegar ég var búin að setja formúluna upp 43543643 sinnum án árangurs. Er hætt í kvöld og það er eins gott að þetta gangi betur á morgun!
Farin í sturtu, það ganga reykjastrókar úr eyrunum á mér.
*FNÆS*

Þrjóskt krydd

Svona kryddstaukur var verslaður inn á okkar heimili í vikunni sem leið. Þegar átti að krydda hamborgara föstudagsins með innihaldi stauksins þá vildi lokið ekki af. Við erum búnar að reyna allar aðferðir til að ná lokinu af en án árangurs. Okkur er greinilega ætlað að borða mat með annars konar kryddi. Hafði hugsað mér að saga lokið jafnvel af en fattaði þá að sögin mín varð eftir hjá Júlla og því gengur það ekki upp. Því hef ég ákveðið að þetta verði svona þraut sem gestir og gangandi fá að spreyta sig á. Þeim sem tekst að skrúfa lokið af, fá verðlaun af einhverju tagi.

Brrrrrr og meira brrrrrr

Efnið sem á eftir kemur er ekki ætlað Sæunnum.
Sit við eldhúsborðið mitt og er fremur ókræsileg til fara. Hárið er ógreitt en hefur verið bundið upp með stórri neongrænni teygju. Þar fyrir neðan tekur við kríuskítshvítt andlit mitt. Efri hluti búksins er klæddur í ljósbláa, gamla slitna prjónapeysu með gati og drapplitaðri flíspeysu utan yfir hana (er kalt). Þar fyrir neðan eru svartar joggingbuxur með hvítri rönd sem flagga í hálfa stöng og poka á rassinum. Sokkarnir voru einu sinni hvítir tennissokkar en eru meira svona drapplitaðir núna eftir áralanga notkun. Þeir eru með svartri og grænni rönd á ökkla og svo er gat á hælnum á öðrum þeirra. Til að toppa múderinguna er ég í eldrauðum strigaskóm af Andreu því mér kalt á tánum og gólfið er ekkert sérlega hlýtt eins og er.
Fyrir framan mig er tölvan, stílabækur, glósur, glósupennar, marglitu fallegu post it miðarnir mínir, casio reiknivélin, strokleður og blýpenni.
Guðmundur Kristján Óskarsson er í tölvunni minni og er að fræða nemendur sína (það er ég) um föll af fleiri breytum.
Í dag er vika í próf.

Hatrömm rimma í stofunni

Vaknaði í morgun við átök í stofunni. Dæturnar voru ekki á eitt sáttar um hvað ætti að horfa á í sjónvarpinu. Eftir hárreytingar, klíp, og spörk með tilheyrandi öskrum skarst ég í leikinn. Úfin um hárið og grimm á svip strunsaði ég fram í stofuna til að skakka leikinn. Að sjálfsögðu bentu þær á hvora aðra og ásakanir gengu á báða bóga. Morgunfúla ég neitaði að hlusta á klag, slökkti á sjónvarpinu og tók fjarstýrinuna með mér aftur upp í rúm og kom henni tryggilega fyrir undir koddanum.
Vorið hætti við að koma og ég fékk mér súkkulaði í morgunmat. Er núna óhemju illt í maganum og get ekki hugsað mér að borða súkkulaði næstu árin.
Við Sæunn ætlum svo að tækla stærðfræðina í dag og ekki veitir af.

Hamingja á ný

Ég á 1 kg af Nóakonfekti og sit hér og skófla í mig marsipan molum. Alvöru lærdómsbensín ójá.

Laugardagur

Heimabankinn bilaður svo ég hef ekkert cash á milli handanna URRRRR!
Er þreytt og pirruð.
Sonurinn er líka pirraður.
Unglingurinn líka en það er ekkert nýtt.
Langar í kók og nammi.
Á splunkunýja glósupenna og marglita post it miða og það gleður mig smá.
Best að halda áfram að troða námsefni í hausinn á sér.

Glóbal Sósulógík

er bók dagsins. Alls ekki leiðinlegt efni svo sem, en hinsvegar er skruddan þykk og þó að ég þurfi ekki að lesa nema valda kafla þá er það samt mikið.
Helgina eftir þessari helgi skellur á 1. í aðventu og auðvitað er þá farið að vora. Vetrarhörkur síðustu vikna eru að gefa undan.
Pirringur dagsins er hljóðið í dyrasímanum þegar einhver ýtir á bjölluna niðri. Hann gefur frá sér hátt og nístandi prumphljóð blandað með skærum bjölluhljóm. Fæ svo sem fáa gesti svo að það er ekki vandamálið. Hinsvegar gleyma krakkaormanir alltaf lyklunum heima og ýta ótæpilega á bjölluna niðri í von um að verða hleypt inn. Ég hata dyrabjölluna mína!

Í dag er dagurinn

Þar sem formlegur próflestur hófst. Verð nú bara að viðurkenna að ég er frekar kvíðin og finnst ég ekki vita mikið um efni annarinnar. Því þarf maður að grúfa nefið ofan í skruddurnar og bæta úr því. Eins gott að ná öllu því ekki nenni ég að eyða jólafríinu í að lesa fyrir endurtektir.
Elsk'ykkur öll.

Jössss

Nú er algjörlega útilokað að unglingurinn nái að vaxa mér yfir höfuð. Búin að mælast 158 cm tvö ár í röð og á því góða 10 cm eftir í mömmu gömlu. Að sjálfsögðu er hún ekki sátt við að vera "stubbur" og er hrikalega svekkt yfir því að ná ekki móður sinni í hæð, þó svo að hún sé fyrir lifandi löngu búin að ná henni í skóstærð. Mikið er nú alltaf jafngaman að metast, þó svo að það sé afkvæmi manns sem á í hlut. Ég er ennþá stærst nanabúbú.
Öllum verkefnum í aðferðarfræðinni lokið!! Á bara eftir workshit verkefnið sem ku vera mjög strembið (einhver snilli í excel hér á meðal lesenda?). Og svo eitt kaflaverkefni í stærðfræði og þá er verkefnalota annarinnar búin.
Ætla að dúndra upp jólaseríum um helgina og jafnvel föndra einn aðventukrans ef ég finn til þess tíma. Svo þarf víst að fara að huga að jólagjöfum og jólafötum á stóðið líka.
Að lokum vil ég óska Steina góðrar svaðilfarar og biðja hann vinsamlegast um að koma nokkurn veginn í heilu lagi heim.

Það borgar sig ekki að stela stundum

Einu sinni var ég 7 ára stelpuskott upp í sveit. Hjá okkur var strákur í vist sem fannst afskaplega gaman að gera mér lífið leitt. Einn daginn fékk strákpjakkurinn sendan pakka frá mömmu sinni og pabba sem var stútfullur af nammi og skemmtilegheitum. Og af því að strákpjakknum fannst gaman að gera mér lífið leitt þá borðaði hann sitt nammi með bestu lyst fyrir framan nefið á mér og var duglegur að gefa bróður mínum, sem þá var erkióvinur minn, með sér. Að sjálfsögðu þótti mér þetta afskaplega ósanngjarnt og tók því til minna ráða. Þegar tækifæri gafst laumaðist ég í kassann góða og hnuplaði dágóði magni af sætindum. Faldi mig svo með góssið inn í hænsnakofa og hóf veisluna. Innan skamms heyrði ég reiðilegar raddir foreldra minna kalla á mig. Úbbs ég vissi sem var að upp hafði komist og ákvað því að öruggara væri að lengja dvöl mína í hænsnakofanum. Mikil leit hófst að stórþjófnum mér, en ég var á góðum stað og ekkert á því að gefa mig fram til yfirvalda. Leið og beið og eflaust hafa liðið nokkir klukkutímar án þess að ég fyndist. Mig var farið að svengja og átti eftir eina karamellu og stakk henni upp í mig. Þá gerðist það! fyrsta tönninn datt! Jeij þvílík sæla! Ég var að verða fullorðin, loksins! Ég hljóp fram í sæluvímu til að monnta mig af þessum tímamótum, gjörsamlega búin að gleyma því að ég var eftirlýstur þjófur. Því miður voru aðrir fjölskyldumeðlimir ekki eins upprifnir af þessum tímamótum og voru bara frekar reiðir vegna afbrota minna og í staðinn fyrir klapp á koll og bros fullt af stolti þá fékk ég bara rassskell.
Boðskapur sögunnar er þessi, ekki stela sælgæti þegar þú ert með lausa tönn.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband