Óþægilegt símtal

Rétt eftir 9 í morgun hringdi gsm síminn minn með látum. "Já halló er þetta Hulda?". Ég svaraði og sagði að Hulda væri ekki í þessu númeri. Smá hik á línunni áður en konan sagði "já nei ég átti við, er þetta Guðbjörg?". Ég svaraði að ég væri hún. Konan sagði þá með strangri röddu "já þú áttir að mæta í próf í morgun". Í nettu sjokki fór ég að fara yfir próftöfluna í huganum. Gat það verið að ég hefði gleymt einu prófi? Ég stundi upp úr mér "Ha?". Konan á línunni sagði, "já þetta er hér í menntaskólanum á Ísafirði og þú mættir ekki í prófið í morgun". Mikill léttir fór um mig alla og um leið gífurleg undrun. Ég tjáði þessari góðu konu að ég hefði nú skráð mig til náms í vor, ekki borgða innritunargjöldin, ekki setið einn einasta tíma, né tekið eitt einasta hlutapróf og væri þar að auki í fullu námi í HA. Og þar með náði það símtal ekki lengra.
Mér er samt spurn, þarf maður ekki að hafa öðlast próftökurétt áður en maður er boðaður í próf? Eða allavega í það minnsta hafa borgað skólagjöldin? Mér finnst þetta frekar skondið.
Í dag er dagur bókfærslunnar. Hér verður setið við borð fram á nótt og svo munu nemar fyrsta árs viðskipta og raunvísindadeildar háskólans á Akureyri þreyja próf í fjárhagsbókhaldi klukkan nákvæmlega 14:00 að staðartíma á morgun.
Rassatinn minn fær hvorki bón né djúphreinsun í jólagjöf þessi jólin. Hann er í ónáð og veskið er í fýlu við hann.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband