Í minningu um Randver

Fyrir stuttu rak ég augun í fiskabúr heimilisins sem mér þótti vera orðið ansi ósjálegt. Vatnið var orðið gruggugt og fiskarnir börðust við að synda um í hnausþykku vatninu. Ég þóttist sjá að nú væri tími til kominn að þrífa búrið svo blessaðir fiskarnir þyrftu ekki að puða svona.
Ég lyfti fiskabúrinu af kommóðunni og bar inn á baðherbergi og lagði það varlega frá mér á vaskborðið. Ég tók mig til við að veiða fiskana upp einn og einn með þar til gerðum háfi. Neita því ekki að veiðimaðurinn kom upp í mér og var ég orðin þrælspennt á tímabili.
Eitthvað var fiskurinn Randver tregur við að láta veiða sig. En eftir mikið puð þá tókst mér þó að ná í sporðinn á honum og fanga hann í háfinn. Sigri hrósandi vippaði ég háfnum upp úr búrinu, rak upp siguröskur mikið og hugðist smella Randveri í litlu skálina þar sem hinir íbúar fiskabúrsins biðu spenntir. Í æsingnum tókst Randveri að skutlast upp úr háfnum og ekki vildi betur til en svo að hann lenti beint ofan í klósettinu sem var galopið við hliðina á skálinni með vinum og félögum Randvers.
Ég heyrði hvernig fiskahópurinn gólaði "NEEEEEIIIIIIII" á sama augnabliki og Randver sveif í slow motion ofan í salernið. Ég heyrði létt skvettuhljóð þegar litli fisk kroppurinn lenti á yfirborði salernisvatnsins. Ég greip fyrir andlitið í angist minni en píndi mig svo til að kíkja á milli fingra minna. Þarna synti Randver um sæll og glaður í postulínu.
Ég mundaði háfinn og hugðist leggja í björgunarleiðangur. Randver var hinsvegar sáttur við sitt nýja heimili og var ekkert á því að láta fanga sig í annað sinn. Hugsa að hann hafi bara hrósað happi yfir því að hafa ekki lent í vatnsdalli kattanna. Hann synti alltaf í hvarf og ekki var nokkur leið að ná til hans, þó svo maður reyndi að lokka hann fram með ýmsum fögrum fyrirheitum.
Ég var ekki að sjá hvernig þetta myndi ganga. Eitt afkvæmi mitt var farið að kvarta um að hún æri alveg við það að fara að kúka í buxurnar og yrði bara að fara núna annars yrði henni brátt í brók. Ég þurfti að taka ákvörðun og það strax. Eftir nokkurn tíma sá ég fram á það að ég neyddist til að sturta. Með erfiðleikum fálmaði ég í átt að sturthnappnum og hikaði. Mér varð litið að skálinni þar sem vinir og vandamenn Randvers horfðu á mig með ásökun í augum. Svo lokaði ég augunum, fór með faðir vorið og togaði. Ég heyrði hávært sturtuhljóð og neyddi sjálfa mig til að horfa ofán í klósettskálina.
Ég hélt í þá veiku von að Randver væri af laxakyni og myndi geta barist við strauminn í staðinn fyrir að skolast út í sjó. Mér varð ekki að ósk minni. Nú get ég ekki horft framan í þá sem eftir eru í fiskabúrinu og get ekki sofið á nóttunni.
En eitt hef ég þó lært af þessum raunum og það er að loka alltaf klósettinu áður en ég fer að þrífa fiskabúrið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband