Á alvarlegu nótunum

Mér virðist sem svo á mínu nánasta umhverfi að ca önnur hver kona á Íslandi hafi lent í því að vera nauðgað, misnotuð kynferðislega eða sætt heimilisofbeldi af einhverju tagi.
Sjálfri hefur mér hvorki verið nauðgað né hef ég verið misnotuð kynferðislega, en ég fékk svo sannarlega að upplifa heimilisofbeldi fyrir nokkrum árum síðan. Ég hafði ekki einu sinni rænu á að losa mig úr þessu sjúka sambandi fyrr en ég komst að því að maðurinn minn var að misnota dóttur mína. Síðar komst ég líka að því að maðurinn minn hafði nauðgað konu. Þessi maður eins og svo margir aðrir slapp við dóm, bæði nauðgunar sem og misnotkunar. Ekki vegna þess að hann var saklaus, því það er hann svo sannarlega ekki, heldur vegna þess að það er sárgrætilega erfitt að sanna svona hluti. Meiri hluti þessara mála er felldur niður og fórnarlömbin hljóta aldrei uppreisn æru.
Heimilisofbeldið er lúmskt fyrirbæri. Ég var mjög sjálfstæð ung kona þegar ég fór í þetta samband. Áður en ég vissi af var ég orðin skugginn af sjálfri mér og gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því. Ég trúði því að ég væri heimsk, ljót og feit. Ég trúði því að þegar ég fékk á kjammann eða var rökkuð niður með munnlegu ofbeldi að ég ætti það fyllilega skilið og að ég gæti sjálfri mér kennt um þar sem ég hafði nú verið að rífa mig. Það var ekki fyrr en ég var send í kvennaathvarfið með alla krakkastrolluna í kjölfar mála dóttur minnar, sem ég gerði mér grein fyrir því hversu lítið var eftir af mér. Þarna hófst líka uppbyggingin aftur.
Í dag hef ég aldrei verið eins sátt í lífinu. Ég veit nákvæmlega hvað ég vil og hvað ég vil ekki. Ég er aftur orðin sterka ÉG og verð aldrei brotin niður aftur. Ég á mig sjálf.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband