17.3.2007 | 11:00
Ráðgátan um stöku sokkana
Hvernig í ósköpunum stendur á því að sokkaskúffan á þessum bæ endar alltaf á því að innihalda hátt í 200 einstaka sokka? Hvert í ósköpunum fara hinir 200 sem eiga að passa við skúffubúana?Ég hef átt langar andvökunætur við að reyna að leysa þessa ráðgátu án árángurs. Ég hallast þó helst að því að það séu í raun til álfar sem steli sokkum, þrátt fyrir að fólk hummi það oftast fram af sér. Önnur tilgáta er sú að sokkaframleiðendur hafi fundið upp einhverskonar formúlu sem láti annan sokkinn eyðast og verða að engu um leið og hann lendir í óhreinatauskörfunni, og þannig græði þeir helling, því fólk þarf jú að ganga í samstæðum sokkum.Mér hafa líka dottið í hug nokkrar lausnir á þessum hvimleiða vanda.T.d. að kaupa alltaf alveg nákvæmlega eins sokka og þar með er vandamálið leyst. Eða koma af stað tískubylgju svo að ósamstæðir sokkar þyki ekki yfirmáta hallærislegir og merki um slóðaskap, heldur helvíti töff, hipp og kúl. Líka væri hægt að sleppa sokkunum algjörlega en það er kannski helst til róttækt í íslenskri veðráttu.Verandi móðir nokkurra para af fótum þá er þetta vandamál viðamikið hér á bæ. Hér eru nefnilega 2 stórar sokkaskúffur og meirihluti íbúa þeirra er ósamstæður. Ég hef tekið mig til við og við og hent sokkum sem hafa tapað lífsförunauti sínum en oftar en ekki þá finnst hinn helmingurinn um leið og ruslabíllinn hefur rennt úr hlaði. Ég þori því ekki fyrir mitt litla líf að henda einum einasta sokki fyrr en eftir nokkura ára viðveru í sokkaskúffunni sem einstæðingur. Því er ég dæmd til eilífðarnóns að róta í örvæntingu í skúffunni góðu, á hverjum einasta virka morgni, í leit að samstæðu pari fyrir skóladag afkvæma minna.Í dag er snjókoma í höfuðstað norðurlandsins og því þykir mér tilvalið að fara út í bæjarferð með afkvæmin og fá okkur ís. Og nei ekki Brynjuís, hann er ógeð.
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning