Hit and run

Skrapp í sund í dag sem var voða indælt. Kom svo heim á Ísafjörð og lagði við Bónus og stökk inn til að kaupa eitthvað bakkelsi fyrir glorsoltna krakka, á meðan þau hinkruðu út í bíl.
Er að gera upp við mig hvort ég eigi að kaupa kanilsnúða eða sæmund í sparifötunum þegar eitt afkvæmið kemur inn í búð og tjáir mér það að það hafi verið keyrt á bílinn okkar og að kallinn hafi bara keyrt í burtu.
Þrammaði ég þung á brún út á bílastæði og þar tjáðu hin afkvæmin mér það að einhver jepplingur hefði verið að leggja í stæðið og klesst á okkar bíl, maðurinn hefði líka rifið upp hurðina og sagt að þetta væri bara smá rispa. Eitthvað hefur hann haft slæma samvisku því að hann ákvað að sleppa helgarinnkaupunum og stinga bara af, og var hann á bak og burt þegar ég mætti á svæðið.
Brúnaþunga ég kættist lítið við að sjá "smá" rispuna, því öll framhurðinn var rispuð eftir endilöngu, sem og út á afturhurð og frambretti vel dældað og rispað. Hringdi í 112 og þurfti að bíða í um hálfa mínútu til að fá samband (er þetta ekki neyðarlínan?). Þegar starfsstúlka neyðarlínunnar sjá sér fært að svara eftir dúk og disk var mér gefið samband við lögregluna á Ísafirði, sem mætti vopnuð minnisblokk, penna og myndavél.
Löggi myndaði skemmdir í bak og fyrir og sagði að ef þetta væri ferðamaður þá gæti orðið erfitt, jafnvel vonlaust að finna sökudólginn. En viti menn, lögreglan á Ísafirði hafði upp á kauða á innan við korteri, húrra fyrir þeim. Þeir létu mig vita að manngarmurinn væri miður sín og ætlaði að hafa samband við mig. Manngarmurinn hringdi svo í mig og reyndi að draga úr skemmdum og ýjaði að því hvort að það þyrfti nokkuð að gera tjónaskýrslu. Ég sagðist nú vera hörð á því að þess þyrfti og ætlar garmur að mæta hér á morgun og ganga frá þessu.
Mikið er nú yndislegt hvað fólk getur verið "heiðarlegt".

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband