Morgunstund gefur gull í mund

Hér á bæ er vaknað stundvíslega klukkan 7:10 á hverjum virkum degi yfir vetrartímann. Húsmóðirin sem líka þjónar hlutverki húsbóndans (ég) stekkur fram úr rúminu við fyrsta hanagal og tekur til við að vekja stóðið.
Fyrsta stopp er herbergi Írisar og Karenar og eru þær ræstar. Því næst er unglingurinn ræstur, venjulega við lítin fögnuð. Svo hefst kapphlaupið á klósettið þar sem allir reyna að verða á undan unglingnum inn á bað, því að Guð einn veit hversu langan tíma hún mun taka sér í að dást að spegilmynd sinni á meðan allir aðrir þurfa að bíða í hvínandi spreng.
Morgunverður er næstur á dagskrá. Hér eldar húsmóðirin/bóndinn ekki hafragraut svo að yfirleitt er í boði amerískt morgunkorn, ósykrað þó. Yfirleitt byrja Íris og Karen á því að rífast um hver eigi að fá sér fyrst á diskinn. Rökin sem beitt eru t.d. þau að önnur hafi fengið sér fyrst í gær o.s.frv. Yfirleitt þarf húsmóðir/bóndi að skakka leikinn þarna. Rimman er þó ekki búin því að Íris er óvenju söngelskt barn og því sífellt sönglandi. Það fer mikið í taugarnar á systrum hennar og upphefjast mikil mótmæli við fyrsta söngtón. Hinsvegar er Íris einstaklega hrekkjótt barn líka (skil ekki hvaðan hún hefur það) og því fer því síður að söngtónarnir hætti að streyma úr hálsi hennar. Hinsvegar lækka þeir all verulega svo aðeins þær pirruðu heyri en ekki húsmóðir/bóndi sem þá myndi stöðva einsönginn. Morgunverður rennur sitt skeið með nokkrum "hættu að glápa á mig", "viltu vera kjurr með lappirnar", "láttu mig í friði" og fleiri sígildum frösum.
Því næst tekur húsmóðir/bóndi sig til við að kemba stóðinu. Hér eru allir sem eru kvenkyns undir 11 ára aldri með mittis sítt hár og því tekur það sinn tíma. Þó prísar húsmóðir/bóndi sig sæla að þessar kvenkyns verur undir 11 ára aldri eru ekki hársárar og því gengur þetta betur en ella.
Liðinu er skipað að halda fram í forstofu og klæða sig í útiföt. Það gengur yfirleitt vandkvæðalaust en þó geta orðið þar smá pústrar, aðalega vegna þess að forstofan í íbúðinni okkar er ekki mjög stór.
Síðast en ekki síst er örverpið klætt og skellt á leikskólann og húsmóðir/bóndi getur tekist á við amstur dagsins í hvaða formi sem það kemur.
Eigið góðan dag.
P.s. sonur minn sá rauða Mustang bifreið niður á Glerártorgi í gær og heimtaði hana í jólagjöf. En þar sem brumminn kostar litlar 4.6 millur þá verður víst líklega ekki af því í ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband