Ódæðisverk á Urðarveginum

Fyrir um viku síðan skreið heimilisfólkið á Urðarveginum á fætur og hugðist takast á við hið daglega amstur. Mætti þeim þó heldur óhugguleg sýn er á neðri hæðina var komið. Gólfið var fjöðrum þakið og þar sem engin kannaðist við að hafa verið í koddaslag þá um nóttina, var ákveðið að setja af stað rannsókn.
Eftir að verksumerki höfðu verið ljósmynduð og skráð í tilheyrandi möppu var hafist handa að þrífa upp fjaðrirnar. Gólfið undir fjöðrunum var blóði drifið og þóttist heimilisfólk þá vita að ekki væri allt með felldu.
Grunur beindist strax að Kára heimilisketti sem sat makindalega út í hornu, sleikti út um og smjattaði. Kári neitaði allri sök en neitaði að láta lygamæla sig. Engar frekar sannanir fundust og sá heimilisfólk sig knúið til að láta málið falla niður.
En eins og oft þegar allar leiðir virðast lokaðar og ekkert virðist hægt að gera þá kom ný vísbendind fram. Kári hafði sést út í garði með fuglsunga í kjafti og því var ákveðið að efla leitina að fuglslíkum í um 10 metra radíus frá fiðurtætingnum. Sú leit bar árangur nokkrum klukkutímum síðar er heimilisfólkið fann hálfan skógarþröst undir tölvuborðinu.
Þjarmað var að Kára ketti og brotnaði hann saman og játaði allt. Hann játaði að hafa stundað fuglafjöldamorð af miklu kappi síðustu vikurnar og viðurkenndi að fuglslíkin í garðinum væri í raun hans sök en ekki vegna fuglaflensu eins og hann hafði reynt að láta virðast.
Kári köttur var sakfelldur og er kominn í stofufangelsi, en fær þó að fara út í taum undir ströngu eftirliti.
Málið telst að fullu upplýst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband