Gubbólfur bar nafn með rentu

Ferðin til Eyja var nú bara nokkuð ljúf en ferðin til baka var helvíti á jörðu.

Keyrðum um borð klukkan 8:00 að staðartíma og röltum svo upp í bíósal
og komum okkur þægilega fyrir. Börnin uppdópuð af sjóveikistöflum og
allir í gúddí fíling. Þegar við erum rétt sest hljómar rödd skippersins
í kallkerfinu. Góðir farþegar velkomin um borð og
blebleblablablalba 14 metrar á sekúndu og þó nokkur alda
blablablebleblabla.

Svo var duggað út úr höfninni. 5 mínútum eftir brottför segi ég við
minn heittelskaða að ég ætli aðeins að skreppa á klósettið. 1,5 tímum
síðar er ég ekki ennþá komin til baka af náðhúsinu svo að minn
heittelskaði kallar á aðstoð frá áhafnarmeðlim og hefst þá leitin að
týndu konunni.

Ég heyri, þar sem ég ligg á gólfinu á náðhúsinu með höfuðið bókstaflega
hangandi ofan í klósettskálina og faðmandi hana þétt, að einhver bankar
á hurðina. Ég heyri í gegnum sjóveikismókið að einhver kallar "ertu
sjóveik?". Ég styn upp með veikum rómi "já ég er svoooo sjóveik".

Röddin fyrir utan spyr hvort ég vilji ekki heldur leggjast á bekk niður
í borðsal, það sé alveg ómögulegt að hanga inn á klósetti í svona
ástandi. Ég næ að reisa mig upp og taka úr lás. Við mér blasir
bjargvættur minn, rauðhærður karlmaður sem fyrr um morgunin hafði bent
okkur á hvar við áttum að leggja inn í skipinu. Hann tekur undir
handleggin á mér og dröslar mér eins og tusku út af klósettinu. Hann
tjáir mér það að sonur minn sé sofnaður. Mér var svo sem slétt sama
hvort að hann væri sofandi eða ekki, ég var föst í kvalarveröld
sjóveikinnar og svitinn dropaði af mér.

Bjargvættur minn dröslar mér inn í borðsalinn þar sem minn
heittelskaði, bróðir hans og sonur minn sitja. Auðvitað getur mágur
minn ekki stillt sig um að hlæja. Mér er hlammað upp á bekk þar sem ég
legst eins og skata og brynja mig upp af gubbudöllum. Í gegnum
sjóveikismókið heyri ég að minn heittelskaði talar um að allir séu
veikir nema hann og gelgjan. Mágur minn og tengdapabbi voru búnir að
vera á hlaupum með að skipta út nýjum æludöllum fyrir þá sem dætur
mínar fylltu og minn heittelskaði var fastur yfir syninu sem sparaði
heldur ekki gubbudallana.

Þessi æðislega notalega ferð sem átti sér stað í gærmorgun tók aðeins
3,5 tíma. Mikið afskaplega vorkenndi ég þeim sem voru að bíða eftir því
að keyra um borð. Og það er nokkuð ljóst að næst FLÝG ég til
Vestmannaeyja!

Ef einhver starfsmaður Herjólfs les þetta þá vil ég endilega benda þeim
að að það vanti klósettpappír á báðum kvennasalernum þarna uppi við
bátaþilfar og eins að það megi gjarnan þrífa klósettskálarnar betur.
Hlandfnykurinn er ennþá fastur í nösunum á mér. Ekki væri verra ef það
væri komið upp púðum þar líka svo að manni verði ekki eins illt í
hnjánum.

Kær keðja Gubba


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband