21.4.2006 | 20:01
Lúlla Letirass
Hvernig stendur á því að ég nenni ekki að lyfta litlafingri þessa dagana? Ég er svo löt að ég nenni ekki einu sinni að skammast mín fyrir letina. Og ef það er ekki hámark letinnar þá veit ég ekki hvað er það.
Einu sinni heyrði ég að hámark letinnar væri (ef maður væri karlkyns) að leggjast ofan á konu og bíða eftir jarðskjálfta. En þar sem ég er kvenkyns þá hugsa ég að það sem ég nefndi fyrr sé háletimark kvenkynsins.
Núna eftir helgi mun þó letin verða barin í burtu. Hún ég er nefnilega að fara að byrja á 6 vikna ofurpúl ná(m)skeiði með svipaða uppbyggingu og bootcamp ná(m)skeiðin. Þjálfi var eitthvað að tala um að hlaupa upp fjallshlíðar og meira skemmtilegt. Veit ekki alveg hvort ég á að hlakka til eða kvíða.
Nenni ekki að blogga meira og er að spá í að fara á www.mega.is og taka einn kapal, ef ég nenni.
Gavöðbjörg
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2006 | 11:44
Fermingardagurinn hennar Andreu
Þegar ég ætlaði að fara að raða upp veitingnum í salnum, þá var veislan sem hafði verð þar fyrr um daginn ennþá í gangi og veisluhaldarar neituðu að yfirgefa svæðið þó að þeirra tími væri búinn.
Á meðan ég var að rífast og skammast yfir salnum og reyna að koma veitingunum fyrir hékk sonurinn í fótunum á mér og gerði ekkert annað en að flækjast fyrir.
Ég var farin að verða ansi örg og var sérlega fúl út í Júlla sem hvergi var sjáanlegur og átti að sjá til þess að Jóhann væri ekki að flækjast fyrir mér.
Fer að leita að Júlla og finn hann blindfullann með gestunum úr veislunni sem átti að vera búin. Ég sprengdi nokkrar æðar í höfðinu og öskraði úr mér lungum á mannfýluna og dömpaði honum á staðnum.
Orðin hálftíma of sein fer ég og sæki Andreu þar sem hún er stödd á hárgreiðslustofu. Þegar ég loksins næ þangað þá er hún rétt tilbúin og við förum út í bíl. Þar hrynur öll greiðslan niður og við þurfum að fara inn á stofuna aftur til að laga hárið. Athöfnin löngu byrjuð og ég búin að læta græða bréfpoka á smettið á mér til að anda í.
Þarna vaknaði ég í svitakófi.
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2006 | 22:48
Hæ
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 12:48
Gleðilega páska
"Heimskur er jafnan höfuðstór" er málsháttur sem hefði hugsanlega geta
verið í egginu mínu. Í staðinn fékk ég "sér eignar smali fé þó engan
eigi sauðinn".
Byrjaði daginn á því að fá mér súkkulaði í morgunmat og því næst fékk
ég mér súkkulaði í hádegismat. Í kaffitímanum fæ ég mér ef til vill
súkkulaði með nýbakaða brauðinu mínu. Í kvöldmat verður svo svínalund
fyllt með sveppum, rauðu pestói og rjómaosti ásamt unaðslegu meðlæti og
rjómasósu með hvítvínskeim. Ostakaka verður í eftirrétt og hugsanlega
smá súkkulaði líka.
*rop*
Ég
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2006 | 17:47
Til lukku með daginn litli bróðir
Elskulegur bróðir minn hann Palli er þrítugur í dag. Á morgun eru
akkúrat 30 ár frá því að ég trítlaði upp á sjúkrahús með pabba og fékk
að skoða þetta litla rauða ofan í vöggunni. Þegar árin færðust yfir
varð þetta litla rauða með öllu óþolandi og voru þær ófáar barátturnar
sem við háðum.
Mér er í fersku minni nokkrar lúkufyllir af höfuðhári sem ég náði að
rífa af honum og eins er mér í fersku minni samstaðan sem ríkti á meðal
okkar þegar við tókum okkur til og vorum að stríða litlu systkinunum
þegar við áttum að vera að passa.
Endalaust gátum við sullað einhverjum viðbjóði saman og logið að þeim
að þetta væri nammi, og alltaf opnuðu þau munninn og gleyptu við.
Ójá æskuminningarnar eru ljúfar.
Vona að Samherji haldi þér nú góða veislu þarna þar sem þú ert staddur út á hafi um borð í Baldvini Þorsteinssyni.
Stóra sys
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2006 | 16:33
Jólin koma
Skiptir svo sem engu því eftir tvo daga mun ég ráðast á páskaeggið sem hann Julio gaf mér og borða það upp til agna alveg alein. Svo mun ég gjóa augunum að hans eggi og sníkja bita. Undarlegt hvað ég er alltaf miklu fljótari með páskaeggið en hann.
Later dudes
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2006 | 13:58
Gubbólfur bar nafn með rentu
Ferðin til Eyja var nú bara nokkuð ljúf en ferðin til baka var helvíti á jörðu.
Keyrðum um borð klukkan 8:00 að staðartíma og röltum svo upp í bíósal
og komum okkur þægilega fyrir. Börnin uppdópuð af sjóveikistöflum og
allir í gúddí fíling. Þegar við erum rétt sest hljómar rödd skippersins
í kallkerfinu. Góðir farþegar velkomin um borð og
blebleblablablalba 14 metrar á sekúndu og þó nokkur alda
blablablebleblabla.
Svo var duggað út úr höfninni. 5 mínútum eftir brottför segi ég við
minn heittelskaða að ég ætli aðeins að skreppa á klósettið. 1,5 tímum
síðar er ég ekki ennþá komin til baka af náðhúsinu svo að minn
heittelskaði kallar á aðstoð frá áhafnarmeðlim og hefst þá leitin að
týndu konunni.
Ég heyri, þar sem ég ligg á gólfinu á náðhúsinu með höfuðið bókstaflega
hangandi ofan í klósettskálina og faðmandi hana þétt, að einhver bankar
á hurðina. Ég heyri í gegnum sjóveikismókið að einhver kallar "ertu
sjóveik?". Ég styn upp með veikum rómi "já ég er svoooo sjóveik".
Röddin fyrir utan spyr hvort ég vilji ekki heldur leggjast á bekk niður
í borðsal, það sé alveg ómögulegt að hanga inn á klósetti í svona
ástandi. Ég næ að reisa mig upp og taka úr lás. Við mér blasir
bjargvættur minn, rauðhærður karlmaður sem fyrr um morgunin hafði bent
okkur á hvar við áttum að leggja inn í skipinu. Hann tekur undir
handleggin á mér og dröslar mér eins og tusku út af klósettinu. Hann
tjáir mér það að sonur minn sé sofnaður. Mér var svo sem slétt sama
hvort að hann væri sofandi eða ekki, ég var föst í kvalarveröld
sjóveikinnar og svitinn dropaði af mér.
Bjargvættur minn dröslar mér inn í borðsalinn þar sem minn
heittelskaði, bróðir hans og sonur minn sitja. Auðvitað getur mágur
minn ekki stillt sig um að hlæja. Mér er hlammað upp á bekk þar sem ég
legst eins og skata og brynja mig upp af gubbudöllum. Í gegnum
sjóveikismókið heyri ég að minn heittelskaði talar um að allir séu
veikir nema hann og gelgjan. Mágur minn og tengdapabbi voru búnir að
vera á hlaupum með að skipta út nýjum æludöllum fyrir þá sem dætur
mínar fylltu og minn heittelskaði var fastur yfir syninu sem sparaði
heldur ekki gubbudallana.
Þessi æðislega notalega ferð sem átti sér stað í gærmorgun tók aðeins
3,5 tíma. Mikið afskaplega vorkenndi ég þeim sem voru að bíða eftir því
að keyra um borð. Og það er nokkuð ljóst að næst FLÝG ég til
Vestmannaeyja!
Ef einhver starfsmaður Herjólfs les þetta þá vil ég endilega benda þeim
að að það vanti klósettpappír á báðum kvennasalernum þarna uppi við
bátaþilfar og eins að það megi gjarnan þrífa klósettskálarnar betur.
Hlandfnykurinn er ennþá fastur í nösunum á mér. Ekki væri verra ef það
væri komið upp púðum þar líka svo að manni verði ekki eins illt í
hnjánum.
Kær keðja Gubba
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2006 | 23:35
Adiós
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2006 | 13:08
Gúrkutíð
Síðasta bloggfærsla tók úr mér allan mátt. Ég hef bara ekkert að segja. Gæti það hugsast að ég hafi gengið fram af sjálfri mér? Og ef ekki, gengið fram hjá sjálfri mér?
Allavega þá var krabbameinsskoðunin eins og hún er alltaf. Kvensum hóað saman, látnar skrifa helstu upplýsingar um það sem kjallarinn þeirra hefur gengið í gegnum á sínu lífsferli.
Eitt var þó öðruvísi en áður. Það er búið að taka út fínu sloppana sem eru opnir í rassinn og setja inn pils á stærð við Perluna. Og það fúlasta við þetta allt saman er að það eru tvær stærðir. Sú stærri er bleik en allt of stór á mig og sú minni er skurðstofugræn og passleg. Mig langar líka í bleikt pils!! Óréttlátt!
Þegar kvensur eru búnar að klæða sig í smart pilsin þá er þeim hóað inn í biðstofuna. Á biðstofunni eru léttar veitingar og svo fáum við að horfa á video um hvernig á að káfa á vinkonunum* í leit að ullabjakki*. Þarna eru líka svona gervivinkonur með gerviullabjakki sem allar fáum við að setja á bringuna á okkur. Svo káfar maður bara þar til maður finnur eitthvað. Ef maður er orðin fertugur eða eldri þá fær maður að fara með vinkonurnar í kremjumyndatökur til að auðvelda leit að ullabjakki.
Eftir smá bið er hóað í mann, og þar er maður leiddur inn í herbergið, skipað að fara upp á bekk með fætur í ístöð og lyfta pilsinu fagra. Svo er töngin notuð til að fá betri sýn á hið neðra. Innvolsið skoðað vel og vandlega og svo að lokum er risastórum eyrnapinna smellt þarna inn og hrært vel og vandlega áður en manni er skipað niður af bekknum og beðin um að hypja sig út.
*brjóst
*krabbamein
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2006 | 22:26
Að vera kona getur verið pína
Að hanga upp á bekk með fætur í ístöðum er ekki mjög notalegt þegar maður er að reyna að rembast við að prumpa ekki. Hlýtur líka að vera frekar óþægilegt fyrir kvennsa að sjá mann endalaust blikkandi með því óæðra og ekki vita hvort að ég muni vinna bardagann við gasið og halda því innandyra eða þá að hann muni fá á sig norðan 25 m/s með tilheyrandi skemmtileg heitum.
Ég er sem sagt á leið í krabbameinskoðun á morgun.
Breytt 5.4.2007 kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)